Þar vísar hann til tölfræði um fjölda smita sem rakin hafa verið til sundlauga og líkamsræktarstöðva. Sú tölfræði sem hann gerir athugasemd við er að 36 smit hafi verið rekin til líkamsræktarstöðva en aðeins fimm til sundlauga.
Þær tölur eru þó fengnar frá smitrakningarteymi almannavarna og greindi Vísir einnig frá þeim í gær.
„Þetta er skrítin frétt. Þann 13. október sl birtist frétt um að sex einstaklingar hefðu greinst með smit sem rakið væri til morgunsunds í lauginni að Hrafnagili í Eyjafirði. Síðar barst frétt um að starfsmaður við Breiðholtslaug hefði smitast. Vel má vera að tilvikin séu fleiri. Þegar af þessari ástæðu virðist fréttin um fjölda smita í sundlaugum vera röng," skrifar Gestur í athugasemd til RÚV.
Hann segir þó að öllum líkindum vera rétt að fleiri smit hafi greinst í Reykjavík en á Hvammstanga, en þó mætti ekki draga þá ályktun að meiri smithætta sé þar. Sami annmarki væri á samanburði smita í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum, enda færu fleiri í líkamsræktarstöðvar að jafnaði.
„Án þess að vita hve margir fara í sund og hve margir mæta í líkamsrækt er þessi samanburður algjörlega ómarktækur. Mér skilst að mætingar í líkamsrækt séu meira en þrisvar sinnum fleiri í Reykjavík en mætingar í sund.“

Hafa ekki áreiðanlegan samanburð á mætingu
Á vef World Class, þar sem athugasemd Gests til RÚV er birt, kemur einnig fram að athugasemdirnar snúi aðeins að því að málefnalega sé staðið að ákvörðunum þar sem fyrirtækjum er gert að stöðva starfsemi.
Björn Leifsson, eigandi World Class, bætir við að World Class búi ekki yfir áreiðanlegum upplýsingu um þann fjölda sem mæti í heilsurækt og sundlaugar. Þó telji hann öruggt að fleiri mæti í líkamsrækt í Reykjavík en í sundlaugar, sennilega þrisvar sinnum fleiri.
„Um smitin sem tengjast líkamsræktinni vitum við fátt. Okkur er ekki kunnugt um að neitt smit verði rakið til World Class stöðvar. Þegar smit hefur komið upp, t.d. í leikskóla, kemur fram í fréttum að gripið er til ráðstafana sem virðast felast í því að yfirvöld láta loka viðkomandi leikskóla og sótthreinsa allt áður en starfsemin hefst að nýju. Ekkert slíkt hefur komið frá sóttvarnaryfirvöldum gagnvart starfsemi World Class,“ skrifar Björn.
Hann segir World Class hvorki hafa fengið athugasemdir um sóttvarnir né fregnir af því að smit hafi verið rakið til stöðvanna. Hafi svo verið sé stjórnvöldum skylt að upplýsa stöðina um það.