Liverpool lék á sunnudagskvöldið í fyrsta sinn fyrir framan áhorfendur á Anfield síðan í mars og fagnaði endurkomu stuðningsmannanna með flottum 4-0 sigri á Úlfunum.
Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp átti erfitt með sig eftir leikinn enda eins og fleiri hjá Liverpool búinn að bíða lengi eftir að heyra aftur í sínu fólki í stúkunni.
Eins og vanalega var Inside Anfield með myndavélarnar á lofti á bak við tjöldin og hafa nú sett saman myndband sem sýnir það sem gekk á utan vallar þetta tímamótakvöld á Anfield.
Í myndbandinu má sjá áhorfendur mæta á völlinn og fögnuðinn sem leikmenn Liverpool fengu að heyra þegar þeir hlupu fyrst inn á völlinn til að hita upp.
Það má líka auðvitað heyra stuðningsmennina syngja You'll Never Walk Alone rétt fyrir leik sem og fleiri söngva á meðan leiknum stóð.
Í myndbandinu má líka sjá gang leiksins þar sem er notuð ný sjónarhorn á stærstu atvikin, mörkin fjögur en einnig þegar víti var dæmt á Liverpool í stöðunni 1-0. Varsján hjálpaði dómaranum að leiðrétta þau mistök sín.
Það var þannig mikið fjör í Kop stúkunni þegar Georginio Wijnaldum skoraði glæsimark fyrir framan hana og kom Liverpool liðinu í 2-0.
Myndbandið endar síðan með stuttu broti úr viðtölum við þá Georginio Wijnaldum og Jürgen Klopp. Það má sjá það allt hér fyrir neðan.