Þetta er á meðal þess sem fram kemur í minnisblaði hans til heilbrigðisráðherra sem er grundvöllur nýrra sóttvarnaraðgerða sem kynntar voru rétt fyrir hádegi í dag, en lesa má um helstu atriði þeirra hér. Þær munu gilda til 12. janúar á nýju ári.
Í minnisblaðinu nefnir Þórólfur að flest smit hafi að undanförnu greinst á höfuðborgarsvæðinu. Því hafi komið upp hugmyndir um að beita mishörðum sóttvarnaraðgerðum á mismunandi svæðum.
Samkvæmt tölum á Covid.is eru aðeins tveir í einangrun á svæði sem nær frá Hrútafirði í vestri að Djúpavogi í austri, báðir á Akureyri. 149 eru hins vegar í einangrun á höfuðborgarsvæðinu.

Í minnisblaðinu kemur fram að Þórólfur hafi framkvæmt óformlega skoðanakönnun á meðal umdæmislækna sóttvarna á landsbyggðinni og lögreglustjóra landsins um ágæti þess að beita mishörðum sóttvarnaraðgerðum eftir landsvæðum.
Það hafi hins vegar komið í ljós í henni að mjög skiptar skoðanir hafi verið á slíkri tilhögun.
„Á þessum tímapunkti þegar faraldurinn er í lágmarki alls staðar á landinu þá tel ég því ekki skynsamlegt að beita mismunandi sóttvarnaaðgerðum á mismunandi svæðum,“ skrifar Þórólfur
Nefnir Þórólfur einnig að nýjustu útreikningar á smitstuðli bendi til þess að hann sé um 1,5 sem þýði að staðan sé viðkvæm, lítið þurfi til að hleypa faraldrinum aftur í uppsveiflu.
Þórólfur ræddi stuttlega um þessa óformlegu könnun í Reykjavík síðdegis í gær. Umræða um það hefst þegar um 8.30 mínútur eru liðnar af viðtalinu hér að neðan.