Þetta kemur fram í frétt Namibian Sun. Skjölin sem vitnað er í eru sögð koma frá Ríkissaksóknara Namibíu en ekki er útskýrt nánar hvaða skjöl um er að ræða. Í fréttinni segir einnig að mögulega gætu mennirnir tveir verið framseldir til Namibíu.
Samkvæmt Namibian Sun er um að ræða þá Ingvar Júlíusson, fjármálastjóra Samherja á Kýpur, og Egil Helga Árnason, framkvæmdastjóra Mermaria Seafood Namibia.
Í yfirlýsingu frá Samherja, sem gefin var út í síðustu viku, sagði að lögreglan í Namibíu hefði engar tilraunir gert til að hafa afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum félaga tengdum Samherja.
Namibian Sun vitnar einnig í yfirlýsingu Samherja um að ekki hafi verið reynt að ná tali af starfsmönnunum sem nefndir eru í skjölunum. Þar segir einnig að yfirvöld í Namibíu hafi engan lagagrunn til að krefjast framsals íslenskra ríkisborgara, þar sem ekkert framsalssamkomulag sé til staðar.
Í frétt miðilsins segir einnig að embætti ríkissaksóknara telji líkur á því að hægt yrði að dæma Esja Holding, Mermaria Seafood, Saga Seafood og Esja Investments fyrir spillingu. Það eru félög sem tengjast rekstri Samherja í Namibíu og víðar.
Ríkissaksóknari Namibíu sakar Samherja um að hafa borgað mútur til að koma höndum yfir hrossamakrílskvóta í Namibíu. Embættið hefur áætlað að ólöglegur ávinningur Samherja vegna þessa sé metinn á 547 milljónir namibíudollara, eða um 4,7 milljarða króna.
Þessu hefur Samherji hafnað alfarið.
Í annarri yfirlýsingu sem gefin var út í síðustu viku segir að áætlun Ríkissaksóknara feli í sér áætlaðar heildartekjur áður en skattar og gjöld hafi verið dregin frá. Ekkert hafi verið minnst á skatta, gjöld og annan rekstrarkostnað. Þá bendir félagið á að útgerðin í Namibíu hefði þegar uppi var staðið, verið rekin með tapi á tímabilinu 2012-2018.