Gríðarlegt leikjaálag hefur verið á þeim liðum ensku úrvalsdeildarinnar sem eru einnig þátttakendur í Evrópukeppnum, að undanförnu. Klopp og Guardiola hafa farið mikinn og Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, hefur einnig gagnrýnt leikjaniðurröðunina í úrvalsdeildinni.
Mourinho gefur lítið fyrir þessa umræðu.
„Við spiluðum fjóra leiki á einni viku og þá var enginn vælandi yfir því. Við fengum heldur engan stuðning en núna láta kollegar mínir mikið í sér heyra. Hvenær vilja þeir spila þessa leiki?“ spyr Mourinho.
Portúgalinn bendir einnig á að Man Utd og Man City hafi spilað færri leiki í deildinni en önnur lið en Manchester liðin tvö auk Leeds, Burnley, Aston Villa og Newcastle eiga einn leik til góða á önnur lið deildarinnar.
„Það er ekki gott fyrir deildina. Ég veit ekki hvenær þessir leikir verða spilaðir. Það er erfitt að sætta sig við þetta því þessi staða hefur áhrif á keppnina. Ég hef leitað eftir svörum en það getur enginn svarað,“ segir Mourinho.