Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingar á búvörulögum í gær sem munu hækka álögur á innfluttfluttum landbúnaðarafurðum fram til ársins 2022. Þetta sé gert til að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu með mikilli fækkunar ferðamanna.

Hinn 1. janúar á þessu ári var álag á verð á innfluttum landbúnaðarafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins lækkað. Það var gert með upptöku svo kallaðra jafnvægis útboða. Í því felst að tilboðsgjafar greiði lægsta samþykkta verð í tollkvóta í stað þess að greiða þá fjárhæð sem tilboð þeirra á uppboði kvótanna hljóðaði upp á.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að þetta væri gert til að síðan yrði hægt að hækka einnig verð á innlendum lándbúnaðarvörum og neytendur látnir borga kostnaðinn.
Frumvarp landbúnaðarráðherra virðist njóta mikils meirahluta stuðnings á Alþingi. Þingmenn Miðflokksins vidu þó ganga lengra en ráðherra í umræðunum og segja tollasamningum við Evrópusambandið upp. En formaður Framsóknarflokksins hefur einnig mælt fyrir þeirri hugmynd.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagðist átta sig á þeim áföllum sem margar atvinnugreinar hefðu orðið fyrir og þar með matvælaframleiðslan. En það ætti einnig við um stóran hluta þjóðarinnar.
„Það er um 25.000 manns atvinnulausir. Þessi kreppa bítur harðast það fólk sem þarf að horfa á eftir hverri krónu þegar það kaupir í matinn. Þetta þarf einfaldlega að hafa í huga þegar við ræðum frumvarp af þessum toga,“ sagði Logi.

Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar tók í svipaðan streng og báðir sögðu þeir viðskiptafrelsi alla tíð hafa gefist almenningi best. Ekki ætti að styðja íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu með aukinni vernd og viðskiptahindrunum enda innflutningurinn lítill í stóra samhenginu.
„Það má draga það mjög í efa að það að draga úr þessum innflutningi muni skipta nokkru einasta máli fyrir vanda bænda eða íslenska matvælaframleiðendur,“ sagði Jón Steindór.
Landbúnaðarráðherra sagði verð á kjöti á heimsmarkaði hafa lækkað um 14 prósent á þessu ári.
„Fullyrðingar um að þessi breyting muni koma til með að hækka verð til neytenda, ég held að það sé ekki á færi nokkurs manns að svara því,“ sagði Kristján Þór Júlíusson.