Þetta kemur fram á vef Samherja þar sem segir að seljandi togarans sé félagið Heinaste Investment Namibia sem félag tengt Samherja eigi rúmlega helming hlutafjár í.
Kaupandinn er Tunacor fisheries sem gerir út fimmtán skip að því er fram kemur á vef Samherja. Þar segir enn fremur að með sölu skipsins verði hægt að endurheimta störf um eitt hundrað skipverja sem voru áhöfn þess áður en skipið var kyrrsett. Skipið hefur legið við höfnina í Walvis Bay í um eitt ár.

Nauðsynlegri yfirferð á tækjum og búnaði Heinaste sé nú lokið og muni skipið halda til veiða á morgun í þjónustu nýs eiganda með áhöfn sem er að verulegu leyti sé sú sama og áður. Þá hefur kaupandi skipsins gefið því nýtt nafn og heitir skipið nú Tutungeni, að því er segir á vef Samherja.
Skipið komst í fréttirnar hér á landi eftir umfjöllun RÚV um Samherjaskjölin svokölluðu auk þess sem að Arngrímur Brynjólfsson, þáverandi skipstjóri skipsins var handtekinn, sakaður um ólöglegar veiðar á hrygningarsvæðum undan ströndum Namibíu.
Hann játaði sök í febrúar en sagði eftir komuna hér við land að hann hefði tekið á sig sökina til þess að sleppa við það vera fastur í Namibíu um langa hríð.