Innlent

Víðir í sótt­kví vegna smits í nær­um­hverfi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Víðir fer í seinni sýnatöku að sjö daga sóttkví lokinni.
Víðir fer í seinni sýnatöku að sjö daga sóttkví lokinni. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnasviði ríkislögreglustjóra, er kominn í sjö daga sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist í nærumhverfi hans. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnasviðs í samtali við fréttastofu.

Víðir fór í sýnatöku síðdegis í dag og reyndist ekki smitaður af veirunni. Hann verður engu að síður í sóttkví næstu sjö daga, og síðari sýnatöku að henni lokinni.

Vegna náinnar samvinnu við Víði fóru nánustu samstarfsmenn Víðis hjá almannavörnum einnig í sýnatöku, auk Ölmu Möller landlæknis og Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Reyndust öll sýni sem tekin voru neikvæð.

Jóhann segir jafnframt í samtali við fréttastofu að almannavarasviði ríkislögreglustjóra hafi verið skipt í tvennt vegna kórónuveirufaraldursins. Þannig hefur ekki allur starfsmannahópurinn verið í samskiptum við Víði.

Þetta er í annað sinn sem Víðir þarf að fara í sóttkví eftir að hafa umgengist einstakling sýktan af kórónuveirunni. Í september fór hann í sóttkví eftir að hafa umgengist einstakling sem var talinn vera mjög smitandi daginn sem hann hitti viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×