Þrír greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á vefnum covid.is. Tveir voru í sóttkví við greiningu og einn utan sóttkvíar.
Hafa ber í huga að mjög fá sýni voru tekin í gær. 259 einkennasýni voru tekin og ellefu sýni við sóttkvíar- og handahófsskimun.
Nýgengi innanlandssmita heldur áfram að fara niður og er nú 40,1 en var 43,6 í gær.
198 eru nú í einangrun með Covid-19 og fækkar þeim um sjö frá því í gær en þeim fjölgar sem eru í sóttkví; eru nú 220 en voru 205 í gær.
Tíu greindust á landamærunum með virkt smit í gær og einn mældist með mótefni. Nýgengi landamærasmita fer því upp; það var 10,9 í gær en er í dag 11,5.
45 liggja á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og þar af eru tveir á gjörgæslu. Tíu þeirra 45 sem eru inniliggjandi eru með virkt smit að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis á smitsjúkdómadeild spítalans.
Alls hafa nú 5.289 einstaklingar greinst með kórónuveiruna hér á landi síðan faraldurinn hófst í lok febrúar. 26 manns hafa látist vegna Covid-19.
Fréttin hefur verið uppfærð.