Dean Henderson, varamarkvörður Manchester United, hefur óskað eftir því að fá að fara að láni frá félaginu þegar opnað verður fyrir félagaskipti á nýju ári að því er heimildir enskra fjölmiðla herma.
Henderson var einn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð þegar hann lék sem lánsmaður hjá nýliðum Sheffield United.
Hann hefur hins vegar ekki náð að slá David De Gea úr byrjunarliðinu á Old Trafford og vill fá meiri spilatíma til að eiga möguleika á að komast í landsliðshóp Englands fyrir EM næsta sumar.
Úrvalsdeildarliðin Brighton og Leeds eiga bæði að hafa spurst fyrir um Henderson auk B-deildarliðsins Bournemouth.