Erlent

Reglulegar mannaðar geimferðir einkafyrirtækis hafnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Falcon 9-eldflaugin þegar hún hóf sig á loft með Dragon-ferjuna og fjóra geimfara innanborðs í nótt.
Falcon 9-eldflaugin þegar hún hóf sig á loft með Dragon-ferjuna og fjóra geimfara innanborðs í nótt. AP/John Raoux

Fjórir geimfarar voru fyrstu farþegarnir þegar reglulegar mannaðar ferðir með geimferju einkafyrirtækisins SpaceX hófust í nótt. Þetta var önnur mannaða geimferðin á vegum fyrirtækisins sem er eitt tveggja sem sér bandarísku geimvísindastofnuninni NASA fyrir geimferjum til að flytja menn.

Geimskot Dragon-geimferjunnar á Falcon 9-eldflaug í gær var fyrsta reglulega geimferðin til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðu sem SpaceX annast fyrir NASA. Fyrirtækið flutti fyrst menn með Dragon-geimferjunni í lok maí.

Ferjunni var skotið á loft frá Canaveral-höfða á Flórída í Bandaríkjunum klukkan 00:27 á íslenskum tíma í nótt. Um borð voru fjórir geimfarar, þrír Bandaríkjamenn og einn Japani. Á meðal þeirra er Victor Glover, yfirmaður úr bandaríska sjóhernum, sem er fyrsti svarti geimfarinn sem fer til langdvalar um borð í geimstöðinni.

„Þetta var aldeilis þeysireið,“ sagði Mike Hopkins, stjórnandi ferjunnar þegar hún var komin á braut um jörðu um tólf mínútum eftir geimskotið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Geimfararnir fjórir, frá vinstri: Shannon Walker, Victor Glover, Michael Hopkins og Soichi Noguchi.AP/John Raoux

Áætlað er að Dragon-geimferjan leggist að Alþjóðlegu geimstöðinni í nótt og verði þar fram á vorið. Ferðin tekur 27 og hálfa klukkustund og er geimferjan nær algerlega á sjálfstýringu á meðan.

Viðbrögð núverandi og verðandi Bandaríkjaforseta við geimskotinu var alls ólík. Donald Trump, fráfarandi forseti, tísti um að NASA hefði verið rjúkandi rústir þegar hann tók við embætti en standi nú í fremstu röð. 

Joe Biden, verðandi forseti, óskaði aftur á móti NASA og SpaceX til hamingju með geimskotið sem hann sagði til marks um mátt vísindanna, nýsöpunar, hugvits og áreiðni. Óskaði hann jafnframt geimförunum fjórum velfarnaðar í leiðangri sínum.

Til stendur að SpaceX fljúgi sjö ferðir fyrir NASA á næstu fimmtán mánuðum, ýmist með geimfara eða frakt.

Bandaríkin hafa þurft að reiða sig á sovéskar Souyz-geimferjur til að koma geimförum sínum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar frá því að geimskutluáætlunin leið undir lok árið 2011. NASA samdi við SpaceX og Boeing um framleiðslu og rekstur á mönnuðum geimferjum.


Tengdar fréttir

Sitja í Drekanum og bíða eftir glugganum

Ef veður og vindar leyfa verður fjórum geimförum NASA, geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, skotið á loft kl. 00.27 að íslenskum tíma. Um er að ræða samstarf við einkafyrirtækið SpaceX en geimfararnir munu ferðast til Alþjóðlegu geimvísindastöðvarinnar (ISS) í Dragon geimfari á Falcon 9 eldflaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×