Dominic Cummings, einn nánasti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lét skyndilega af störfum í dag. Áður hafði verið greint frá því að Cummings hyrfi á braut fyrir jól í kjölfar deilna um innri málefni ráðuneytisins.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að Cummings hafi sést bera kassa út úr Downing-stræti 10, aðsetri forsætisráðherrans, í kvöld. Þeir Johnson hafi rætt saman í dag og sammælst um að best væri að Cummings léti af störfum þegar í stað.
Ólíkar fylkingar eru sagðar hafa barist um völdin í kringum Johnson forsætisráðherra undanfarin misseri en deilurnar náðu nýjum hæðum í vikunni í kringum skipan nýs starfsmannastjóra í Downing-stræti.
Cummings hefur verið afar umdeildur. Hann var einn forsprakka hreyfingarinnar „Vote Leave“ sem barðist fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Mikið fár skapaðist í kringum Cummings í vor þegar hann virti sóttvarnareglur að vettugi og ferðaðist út fyrir London þrátt fyrir að hann og eiginkona hans hefðu greinst smituð af kórónuveirunni. Johnson forsætisráðherra stóð þá með ráðgjafa sínum.
Lee Cain, samskiptastjóri Johnson, lét einnig af störfum í dag.