24 af þeim 25 sem látist hafa úr Covid-19 hér á landi eru eldri en sextíu ára og átján eru eldri en áttrætt. Einn á fertugsaldri lést úr sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur og er hann sá eini undir sextugu sem fallið hefur frá í baráttu við sjúkdóminn.
Þetta kemur fram í tölulegum gögnum á Covid.is um uppsafnaðan fjölda andláta innanlands. Þessi tölfræði er birt í fyrsta sinn í dag en þar má sjá fjölda andláta og smita í hverjum aldurshópi.
Þar má sjá að af þeim 37 einstaklingum á tíræðisaldri sem greinst hafa hér á landi hafa sex látist. Það svarar til 16,2% eða um rétt tæplega einn af hverjum sex.

Hlutfallið er aðeins lægra í hópi fólks á níræðisaldri. Þar hafa 86 greinst og tólf látist eða 14 prósent smitaðra.
Alls hafa 25 látist hér á landi úr Covid-19 frá því kórónuveiran barst til landsins snemma á árinu. Flestir í seinni bylgju faraldursins hafa látist í kjölfar hópsýkingar sem upp kom á Landakoti.
Klukkan 15 í dag verður niðurstaða skoðunar á hvað miður fór á Landakoti kynnt fjölmiðlum á blaðamannafundi. Fundurinn verður í beinni útsendingu á Vísi.
Alls hafa 4828 smitast hér á landi og 0,5 prósent smitaðra hafa látist af völdum Covid-19.