„Þessi var langur en töluvert snarpur,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík um jarðskjálftann sem reið yfir Suðvesturhornið nú fyrir skömmu.
Grindvíkingar hafa fengið sinn skerf af jarðskjálftum að undanförnu eftir að jarðskjálftahrina hófst í grennd við Þorbjörn, bæjarfjall Grindavíkur, í upphafi árs. Fyrstu mælingar gefa til kynna að skjálftinn hafi verið 5,6 að stærð og upptök hans voru 6,8 kílómetra vestan við Kleifarvatn.
Upptökin voru því lengra frá Grindavík en skjálftarnir sem fylgdu áðurnefndri hrinu. Nefnir Fannar að hann hafi upplifað þennan skjálfta sem sambærilegan við skjálfta með upptök við Þorbjörn að stærð 3,5 til 4.
„Við erum orðin vön svona skjálftum hérna,“ segir Fannar sem var á leið á bæjarskrifstofurnar þegar fréttastofan náði tali af honum. Hann hafði ekki heyrt af neinu tjóni af völdum skjálftans.