Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi, hefði orðið sjötíu ára í dag. Hún lést þann 31. desember 2019.
Á árinu 2020 eru 25 ár frá því að Reykjavíkurborg, undir forystu félagsráðgjafans Guðrúnar sem þá var formaður velferðarráðs, gerði fjárhagsaðstoð að réttindum en ekki matskenndri úthlutun eftir hversu verðugur viðkomandi einstaklingur var.
„Í dag stendur velferðarþjónustan á krossgötum með vaxandi kröfum um nýja nálgun, tæknilausnir og sýnilegri ferla auk þátttöku notenda í öllu sem viðkemur þeirra málum og þjónustuveitingu,“ segir í tilkynningu frá samferðafólki Guðrúnar, eða Gunnu eins og hún var alltaf kölluð.
Samferðafólk Gunnu hefur af þessu tilefni búið til myndband með örsögum um arfleifð Guðrúnar Ögmundsdóttur og hvernig hægt er að nýta hana til að gera þjónustuna við fólk enn betri og í hennar anda.