Barcelona vann enn einn stórsigurinn er liðið lagði Zagreb frá Króatíu í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Fór það svo að Börsungar unnu með 18 marka mun, 45-27.
Starting 7
— Barça Handbol (@FCBhandbol) October 14, 2020
36. @KamKevin
13. @AitorArino13
20. @aleixgomez11
24. @DikaMem
25. #LukaCindric
34. @aronpalm
82. @frade_98
#ForçaBarça pic.twitter.com/UX12EfYxUZ
Það verður seint sagt að gestirnir hafi veitt mikla mótspyrnu. Eftir að jafna metin í 1-1 þá komst Barcelona í 8-1 áður en Zagreb kom knettinum aftur í netið. Engin endurkoma var í kortunum og þegar Aron komst á blað í kvöld var hann að koma Börsungum fjórtán mörkum yfir, staðan þá 19-5.
Gestirnir náðu eilítið að klóra í bakkann fyrir hálfleik og voru „aðeins“ ellefu mörkum undir, 24-13. Aron og félagar héldu áfram í síðari hálfleik og fór munurinn aldrei undir tíu mörk. Á endanum var hann svo 18 mörk en Börsungar skoruðu 45 mörk gegn 27 hjá Zagreb.
Aron skoraði fimm mörk fyrir Barcelona í kvöld. Eru Börsungar með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í B-riðli Meistaradeildar Evrópu líkt og Veszprém og Álaborg.