Enginn leikmaður í íslenska landsliðshópnum er með kórónuveiruna. Þeir fengu allir neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi.
Leikmennirnir nítján sem eftir eru í landsliðshópnum eru því klárir í slaginn fyrir leikinn gegn Belgíu í Þjóðadeildinni í kvöld.
Allir leikmenn í hópi A landsliðs karla fyrir leikinn við Belgíu í kvöld hafa fengið neikvæða niðurstöðu úr Covid-skimun, s.s. enginn smitaður og allir klárir í slaginn #fyririsland pic.twitter.com/afTRhToinv
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 14, 2020
Allt starfslið landsliðsins þurfti að fara í sóttkví í gær eftir að Þorgrímur Þráinsson greindist með kórónuveiruna.
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson fá leyfi til að vera í „glerbúri“ á Laugardalsvellinum í kvöld en þeir Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýra íslenska liðinu af hliðarlínunni. Arnar er þjálfari U-21 árs landsliðs karla en Davíð þjálfar U-17 ára landslið karla. Þórður Þórðarson, þjálfari U-19 ára landsliðs kvenna, verður þeim til halds og trausts.
Ísland er án stiga á botni riðils 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Belgía, sem er í 1. sæti styrkleikalista FIFA, vann fyrri leikinn gegn Íslandi, 5-1.
Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 18:45 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 17:45.