Golfklúbbar á höfuðborgarsvæðinu loka í dag og verða að óbreyttu lokaðir til og með 19. október, samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis.
Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ, staðfesti þetta við Vísi í dag. Hann segir að þrátt fyrir að tekist hafi að spila golf í allt sumar, með sérstökum Covid-reglum á völlunum til að lágmarka smithættu, sé staðan þannig á höfuðborgarsvæðinu að skella þurfi í lás:
„Við erum að eiga við miklu alvarlegri hlut en það hvort að fólk geti spilað golf eða ekki. Í grunninn held ég að flestir hafi skilning á því,“ segir Brynjar.
Brynjar ítrekar einnig skýr tilmæli sóttvarnalæknis þess efnis að íbúar höfuðborgarsvæðisins haldi sig heima nema brýna nauðsyn beri til. Kylfingar í Reykjavík og nágrenni eigi ekki að svala golfþorstanum með því að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið:
„Eftir að fólk áttaði sig á því að vellirnir væru að loka hér á höfuðborgarsvæðinu þá fór það að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið, og leit þannig framhjá tilmælum sóttvarnalæknis. Klúbbarnir urðu varir við þetta, en þeir klúbbar sem ég hef talað við á Suðurnesjum, Suðurlandi og Akranesi eru að vinna að því að meina gestum af höfuðborgarsvæðinu að koma á vellina,“ segir Brynjar.
Uppfært: Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Leynis á Akranesi, hafði samband við Vísi og vildi koma því á framfæri að engin ákvörðun hefði verið tekin um að loka velli klúbbsins fyrir höfuðborgarbúum.