Chelsea hefur gengið frá kaupunum á senegalska markverðinum Édouard Mendy frá Rennes. Talið er að Chelsea hafi greitt 23 milljónir punda fyrir Mendy.
Hann er sjöundi leikmaðurinn sem Chelsea fær til sín í sumar. Mendy skrifaði undir fimm ára samning við Chelsea.
It s official! Edouard Mendy is a Blue! #WelcomeMendy
— Chelsea FC (@ChelseaFC) September 24, 2020
Mendy á að berjast við Kepa Arrizabalaga um stöðu aðalmarkvarðar hjá Chelsea. Kepa, sem er dýrasti markvörður allra tíma, hefur ekki átt sjö dagana sæla hjá Chelsea og gerði m.a. skelfileg mistök í 0-2 tapinu fyrir Liverpool á sunnudaginn.
Mendy kom til Rennes frá Reims í fyrra. Hann hélt níu sinnum hreinu með Rennes í frönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Þrátt fyrir að vera 28 ára hefur Mendy aðeins verið aðalmarkvörður hjá liði í efstu deild í tvö tímabil. Hann var um tíma á mála hjá Marseille en lék aldrei fyrir aðallið félagsins.
Mendy, sem er fæddur í Frakklandi, hefur leikið átta leiki fyrir senegalska landsliðið.
Hinn þrautreyndi Willy Caballero varði mark Chelsea í 6-0 sigrinum á Barnsley í 3. umferð enska deildabikarsins í gær.