Svava Rós Guðmundsdóttir varð fyrir því óláni að meiðast á æfingu tveimur dögum fyrir landsleik Íslands og Svíþjóðar í undankeppni EM í fótbolta.
Svava hefur skorað sex mörk í fimmtán leikjum í sænsku úrvalsdeildinni í sumar, með liði sínu Kristianstad, og mætt nokkrum þeirra leikmanna sem íslenska liðið lék gegn á Laugardalsvelli í gærkvöld.
Hún gat hins vegar ekki mætt þeim í gær vegna meiðsla sinna, en mætti á völlinn á hækjum og sat í stúkunni líkt og varamenn Íslands gerðu vegna sóttvarnareglna UEFA.
Samkvæmt upplýsingum Vísis meiddist Svava í kálfa og er talið að hún verði frá keppni í 4-6 vikur. Því er óvíst að hún geti verið með íslenska liðinu þegar það mætir Svíþjóð á nýjan leik, í Gautaborg 27. október.
