Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Svíum á Laugardalsvellinum í kvöld í öðrum af úrslitaleikjum liðanna um sæti á EM í Englandi. Góð úrslit í kvöld gætu breytt öllu þegar kemur að því að komast á fjórða Evrópumótið í röð.
Íslensku stelpurnar hafa aðeins tvisvar sinnum unnið Svía í fimmtán A-landsleikjum og aldrei í keppnisleik. Báðir sigrarnir komu í Algarve-bikarnum.
Það eru hins vegar leikmenn í íslenska liðinu sem hafa upplifað það að vinna Svía í landsleik. Sex leikmenn í hópnum í dag spiluðu í síðasta sigri á Svíum fyrir rúmum sex árum síðan. Fjórar þeirra voru líka með í hinum sigrinum þremur árum fyrir.
Ísland vann 2-1 sigur á Svíþjóð í síðasta landsleik þjóðanna sem fór fram í Algarve bikarnum 12. mars 2014. Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu mörkin í fyrri hálfleik en Svíar minnkuðu muninn í blálokin.
Glódís Perla Viggósdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir og Elísa Viðarsdóttir voru allir í byrjunarliðinu í þeim leik og Rakel Hönnudóttir kom inn á sem varamaður. Sandra Sigurðardóttir og Elín Metta Jensen voru síðan báðar á bekknum í leiknum.
Þær fjórar sem tóku einnig þátt í 2-1 sigri á Svíum í Algarve-bikarnum árið 2011 voru þær Sara Björk Gunnarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Rakel Hönnudóttir og Dagný Brynjarsdóttir en Dagný kom þá inn á sem varamaður.
Síðasti keppnisleikur þjóðanna var í átta liða úrslitum á EM í Svíþjóð árið 2013 þar sem þær sænsku unnu sannfærandi 4-0 sigur. Besti árangur íslensku stelpnanna í keppnisleik á móti Svíum var 2-2 jafnteflisleikur út í Svíþjóð árið 2005 í undankeppni HM 2007.
Margrét Lára Viðarsdóttir tryggði íslenska liðinu þá jafntefli með marki fimmtán mínútum fyrir leikslok en Ásthildur Helgadóttir hafði áður jafnað metin í 1-1 á 49. mínútu.