Brighton vann Newcastle 3-0 á St. James's Park í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Þetta byrjaði með látum, Neal Maupay kom Brigthon yfir úr vítaspyrnu strax á 4. mínútu og var síðan aftur á ferðinni þremur mínútum síðar þegar hann kom Brighton í 2-0 eftir einungis sjö mínútna leik.
Staðan hélst óbreytt þar til á 83. mínútu en þá innsiglaði Aaron Connolly 3-0 sigur Brighton með fallegu skoti. Yves Bissouma, leikmaður Brighton, fékk rauða spjaldið á 89. mínútu fyrir að fara með takkana í andlitið á mótherja en þá voru úrslit leiksins löngu ráðin.
Eftir leikinn eru bæði lið með þrjú stig þegar tvær umferðir eru búnar af deildinni.