Quiz: Viltu vinna milljón, en mögulega fara í fangelsi? Heiðar Sumarliðason skrifar 20. september 2020 10:30 Þessi vann milljón, en svindlaði hann? Stöð 2 hefur nú sýnt fyrstu tvo þættina af þriggja hluta sjónvarpsþáttröðinni Quiz, en lokaþátturinn fer í loftið í línulegri dagskrá á miðvikudagskvöld (já, hún er víst enn til). Áskrifendur stöðvarinnar geta séð hina tvo á Stöð 2 Frelsi. Það kannast flestir Íslendingar við spurningaþáttinn Viltu vinna milljón sem Þorsteinn Joð stjórnaði á Stöð 2 rétt eftir aldarmót. Þáttaröðin er að breskri fyrirmynd, en ITV hóf sýningar á upprunalegu útgáfunni árið 1998. Þættirnir urðu strax ótrúlega vinsælir og náðu m.a. eitt kvöldið svo miklu áhorfi að 60% breskra sjónvarpstækja, sem var kveikt á, voru stillt á ITV. Who Wants to Be a Millionaire varð flaggskip ITV og breska þjóðin ánetjuð. Svo ánetjuð að víðs vegar um Bretland urðu til sellur fólks sem óskaði þess heitast að komast í stólinn og reyna við milljón pundin. Það var hægara sagt en gert að komast að, því voru einstaklingar sem buðu fram þjónustu sína við að aðstoða fólk að komast í þáttinn. Systkinin Díana og Adrian voru meðal þessa fólks og náðu á endanum að komast í stólinn eftirsótta. Gengi þeirra var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir, því var brugðið á það ráð að koma Charles eiginmanni Díönu í þáttinn. Charles hafði lítinn áhuga á spurningakeppnum, en var tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu til að komast í myndver og vinna fúlgur fjár. Svo fór að hann komst alla leið og vann milljónina. Starfsfólk þáttarins grunaði strax að maðkur væri í mysunni og aldrei fékk Charles milljónina sína, þar sem yfirmenn ITV afhentu honum ekki verðlaunaféð, heldur kærðu hann til lögreglu fyrir svindl. Hér sjáum við hjónin Díönu og Charles, sem og Charles í þættinum. Vantar alla sól í breska þætti Það er fátt sem kemur á óvart í framvindunni þar sem málið er þekkt. Því þurfa höfundarnir að styðja sig við persónurnar og hvernig þær bregðast við aðstæðum til að skapa áhugaverða frásögn. Því gengur þátturinn meira út á hvernig þetta allt saman gerðist, frekar en hvað gerðist. Það tók mig eilítinn tíma að komast í takt við það sem var í gangi á skjánum. Ég held það tengist að einhverju leyti því að Quiz er breskur þáttur, og ég er vanari því að horfa á bandarískt sjónvarpsefni. Það er í raun tvennt sem aðskilur bandaríska þætti frá breskum, sem gerir það að verkum að ég upplifi úrvinnslu þeirra bresku á stundum eilítið viðvaningslega. Stærsti munurinn er að meiri peningar eru í spilinu í Hollywood, því er allt útlit og yfirbragð þátta þaðan fágaðra. Hitt er birtan, en það er bara allt önnur birta í Bretlandi en í Hollywood. Á öðrum staðnum er alltaf skýjað, á hinum er ávallt sól, því eru breskir þættir mun grámyglulegri. Ég jafnaði mig þó á yfirbragði þáttanna þegar sagan af bresku almúga Díönu og Charles var komin á flug. En líkt og hjá konungbornum nöfnum þeirra voru þau ekki lengi í Paradís, sagan fer fljótt á flug og áður en ég vissi af var ég sokkinn inn í Quiz. Þáttaröðin náði það miklum tökum á mér að eftir lokaþáttinn var ég hálf fúll að þeir væri ekki fleiri. Höfundarnir ná bæði að skapa spennandi framvindu (þó við vitum hvað muni gerast) með áhugaverðum persónum, sem og að segja eitthvað um heiminn sem við mannfólkið byggjum. Þrátt fyrir þessa kosti er Quiz ekki alveg án vankanta. Hinn Óskarstilnefndi Stephen Frears leikstýrir, en hann nær ekki ávallt að stilla tóninn af. Framan af koma kómísk augnablik sem eru á skjön við umfjöllunarefnið og slá falska tóna í annars vel fluttu verki. Svo er það Michael Sheen sem stjórnandi spurningaþáttarins. Það er svo sem ekkert að hans frammistöðu, en þessi hárkolla??? Kommon, þetta er ekki Spaugstofan. Matthew Macfayden sem Charles Ingram, er bæði aumkunar- og aðdáunarverður á sama tíma. Sian Clifford leikur Díönu konuna hans og ferst það vel úr hendi. Um leið og andlit hennar birtist á skjánum hugsaði ég: „Já, þessi leikkona, sem er alls staðar.“ Upp komast svik um síðir? Eða voru kannski engin svik? Svo mundi ég ekkert hvaðan ég þekkti hana, fletti henni upp og sá að hún er ekkert alls staðar. Á daginn kom að ég þekkti hana aðeins úr Fleabag-þáttunum, þar sem hún leikur systurina Claire. Það er í raun magnað af hennar hálfu að hafa verið í einni þáttaröð sem ég hef séð og samt finnst mér ég hafa séð hana í hinum og þessum þáttaröðunum. Það er merkilegt að hún sé búin að leika jafn lítið í sjónvarpi og kvikmyndum og raun ber vitni, sérstaklega miðað við að hún er orðin 38 ára gömul. Meira af Sian Clifford, takk. Þáttaröðin er svo hnýtt saman með ákveðnum spurningum varðandi það sem á ensku kallast confirmation bias, og hefur verið þýtt á íslensku sem staðfestingarhneigð. Hvernig við gerum upp hug okkar varðandi ákveðna hluti út frá fyrri vitneskju og sjáum svo allt sem staðfestingu á því. Flest erum við sek um þetta, og viðbrögð mín í byrjun áhorfs dæmigerð staðfestingarhneigð. Ég sá hið grámyglulega breska yfirbragð þáttanna og fór beint í að hugsa um alla leiðinlegu bresku dramaþættina sem RÚV sýndi þegar ég var barn og unglingur. En ekki er alltaf allt sem sýnist. Niðurstaða: Fjórar stjörnur. Quiz kemur á óvart og nær að halda áhorfandanum við efnið frá upphafi til enda. Stjörnubíó Mest lesið Fjölmenni í fimmtugsafmæli Ásgeirs Kolbeins á Tenerife Lífið Bjargvætturinn birtist óvænt og Hilmar brast í grát Lífið Bríet, Valdimar og Elín Hall meðal hæstu styrkhafa Tónlist Þefaði ómvölurnar uppi í snjónum Lífið Krakkatían: Sólskin, dýr og gönguleiðir Lífið Einhleypan: Væri til í steik og rautt með Blö-strákunum Makamál Kveður samfélagsmiðla fyrir fullt og allt Lífið Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Verð alltaf stoltari og stoltari af mömmu Lífið Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Stöð 2 hefur nú sýnt fyrstu tvo þættina af þriggja hluta sjónvarpsþáttröðinni Quiz, en lokaþátturinn fer í loftið í línulegri dagskrá á miðvikudagskvöld (já, hún er víst enn til). Áskrifendur stöðvarinnar geta séð hina tvo á Stöð 2 Frelsi. Það kannast flestir Íslendingar við spurningaþáttinn Viltu vinna milljón sem Þorsteinn Joð stjórnaði á Stöð 2 rétt eftir aldarmót. Þáttaröðin er að breskri fyrirmynd, en ITV hóf sýningar á upprunalegu útgáfunni árið 1998. Þættirnir urðu strax ótrúlega vinsælir og náðu m.a. eitt kvöldið svo miklu áhorfi að 60% breskra sjónvarpstækja, sem var kveikt á, voru stillt á ITV. Who Wants to Be a Millionaire varð flaggskip ITV og breska þjóðin ánetjuð. Svo ánetjuð að víðs vegar um Bretland urðu til sellur fólks sem óskaði þess heitast að komast í stólinn og reyna við milljón pundin. Það var hægara sagt en gert að komast að, því voru einstaklingar sem buðu fram þjónustu sína við að aðstoða fólk að komast í þáttinn. Systkinin Díana og Adrian voru meðal þessa fólks og náðu á endanum að komast í stólinn eftirsótta. Gengi þeirra var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir, því var brugðið á það ráð að koma Charles eiginmanni Díönu í þáttinn. Charles hafði lítinn áhuga á spurningakeppnum, en var tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu til að komast í myndver og vinna fúlgur fjár. Svo fór að hann komst alla leið og vann milljónina. Starfsfólk þáttarins grunaði strax að maðkur væri í mysunni og aldrei fékk Charles milljónina sína, þar sem yfirmenn ITV afhentu honum ekki verðlaunaféð, heldur kærðu hann til lögreglu fyrir svindl. Hér sjáum við hjónin Díönu og Charles, sem og Charles í þættinum. Vantar alla sól í breska þætti Það er fátt sem kemur á óvart í framvindunni þar sem málið er þekkt. Því þurfa höfundarnir að styðja sig við persónurnar og hvernig þær bregðast við aðstæðum til að skapa áhugaverða frásögn. Því gengur þátturinn meira út á hvernig þetta allt saman gerðist, frekar en hvað gerðist. Það tók mig eilítinn tíma að komast í takt við það sem var í gangi á skjánum. Ég held það tengist að einhverju leyti því að Quiz er breskur þáttur, og ég er vanari því að horfa á bandarískt sjónvarpsefni. Það er í raun tvennt sem aðskilur bandaríska þætti frá breskum, sem gerir það að verkum að ég upplifi úrvinnslu þeirra bresku á stundum eilítið viðvaningslega. Stærsti munurinn er að meiri peningar eru í spilinu í Hollywood, því er allt útlit og yfirbragð þátta þaðan fágaðra. Hitt er birtan, en það er bara allt önnur birta í Bretlandi en í Hollywood. Á öðrum staðnum er alltaf skýjað, á hinum er ávallt sól, því eru breskir þættir mun grámyglulegri. Ég jafnaði mig þó á yfirbragði þáttanna þegar sagan af bresku almúga Díönu og Charles var komin á flug. En líkt og hjá konungbornum nöfnum þeirra voru þau ekki lengi í Paradís, sagan fer fljótt á flug og áður en ég vissi af var ég sokkinn inn í Quiz. Þáttaröðin náði það miklum tökum á mér að eftir lokaþáttinn var ég hálf fúll að þeir væri ekki fleiri. Höfundarnir ná bæði að skapa spennandi framvindu (þó við vitum hvað muni gerast) með áhugaverðum persónum, sem og að segja eitthvað um heiminn sem við mannfólkið byggjum. Þrátt fyrir þessa kosti er Quiz ekki alveg án vankanta. Hinn Óskarstilnefndi Stephen Frears leikstýrir, en hann nær ekki ávallt að stilla tóninn af. Framan af koma kómísk augnablik sem eru á skjön við umfjöllunarefnið og slá falska tóna í annars vel fluttu verki. Svo er það Michael Sheen sem stjórnandi spurningaþáttarins. Það er svo sem ekkert að hans frammistöðu, en þessi hárkolla??? Kommon, þetta er ekki Spaugstofan. Matthew Macfayden sem Charles Ingram, er bæði aumkunar- og aðdáunarverður á sama tíma. Sian Clifford leikur Díönu konuna hans og ferst það vel úr hendi. Um leið og andlit hennar birtist á skjánum hugsaði ég: „Já, þessi leikkona, sem er alls staðar.“ Upp komast svik um síðir? Eða voru kannski engin svik? Svo mundi ég ekkert hvaðan ég þekkti hana, fletti henni upp og sá að hún er ekkert alls staðar. Á daginn kom að ég þekkti hana aðeins úr Fleabag-þáttunum, þar sem hún leikur systurina Claire. Það er í raun magnað af hennar hálfu að hafa verið í einni þáttaröð sem ég hef séð og samt finnst mér ég hafa séð hana í hinum og þessum þáttaröðunum. Það er merkilegt að hún sé búin að leika jafn lítið í sjónvarpi og kvikmyndum og raun ber vitni, sérstaklega miðað við að hún er orðin 38 ára gömul. Meira af Sian Clifford, takk. Þáttaröðin er svo hnýtt saman með ákveðnum spurningum varðandi það sem á ensku kallast confirmation bias, og hefur verið þýtt á íslensku sem staðfestingarhneigð. Hvernig við gerum upp hug okkar varðandi ákveðna hluti út frá fyrri vitneskju og sjáum svo allt sem staðfestingu á því. Flest erum við sek um þetta, og viðbrögð mín í byrjun áhorfs dæmigerð staðfestingarhneigð. Ég sá hið grámyglulega breska yfirbragð þáttanna og fór beint í að hugsa um alla leiðinlegu bresku dramaþættina sem RÚV sýndi þegar ég var barn og unglingur. En ekki er alltaf allt sem sýnist. Niðurstaða: Fjórar stjörnur. Quiz kemur á óvart og nær að halda áhorfandanum við efnið frá upphafi til enda.
Stjörnubíó Mest lesið Fjölmenni í fimmtugsafmæli Ásgeirs Kolbeins á Tenerife Lífið Bjargvætturinn birtist óvænt og Hilmar brast í grát Lífið Bríet, Valdimar og Elín Hall meðal hæstu styrkhafa Tónlist Þefaði ómvölurnar uppi í snjónum Lífið Krakkatían: Sólskin, dýr og gönguleiðir Lífið Einhleypan: Væri til í steik og rautt með Blö-strákunum Makamál Kveður samfélagsmiðla fyrir fullt og allt Lífið Valgeir afhenti Ingu textabrot úr laginu Sigurjón digri Lífið Skilnaður eftir tuttugu ára samband Lífið Verð alltaf stoltari og stoltari af mömmu Lífið Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira