Ungverjaland, sem leikur með Íslandi í riðli í undankeppni EM, verður án átta leikmanna gegn Svíþjóð á morgun vegna tveggja kórónuveirusmita.
Svíar mæta því ekki sterkasta liði Ungverja á morgun, þegar Ísland mætir Lettlandi á Laugardalsvelli, en Ísland tekur svo á móti Svíþjóð næsta þriðjudagskvöld.
Í yfirlýsingu frá ungverska knattspyrnusambandinu segir að tveir leikmenn hafi greinst með kórónuveiruna og að sex leikmenn til viðbótar hafi þurft að fara í sóttkví. Þá drógu tveir leikmenn til viðbótar sig út úr ungverska hópnum svo alls vantar tíu leikmenn sem valdir höfðu verið í síðustu viku. Félagslið leikmanna hafa rétt á að hafna því að landsliðskonur spili leikina nú í september, vegna tímabundinnar reglubreytingar FIFA.
Í hópi þeirra sem missa af leiknum við Svíþjóð, og svo leiknum við Lettlandi í næstu viku, eru þrír leikmenn sem komu við sögu í 4-1 tapi Ungverja gegn Íslendingum fyrir ári síðan. Það eru markvörðurinn Réka Szocs, miðjumaðurinn Petra Kocsán og sóknarmaðurinn Fanni Vágó.
Edina Markó, landsliðsþjálfari Ungverjalands, var með varann á þegar hún tilkynnti landsliðshóp sinn fyrir átta dögum, því hún valdi 23 leikmenn og átta varamenn.
Ungverski hópurinn fór í tvær skimanir fyrir kórónuveirunni áður en hann hélt til Svíþjóðar í gær, og fer aftur í skimun eftir leikinn og við heimkomu til Ungverjalands.
Ungverjaland og Ísland mætast ytra 1. desember þegar undankeppni EM lýkur.