Þór sækir Aftureldingu heim í 1. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30.
Þetta er fyrsti leikur Þórs undir „eigin merkjum“ í efstu deild í fjórtán ár, eða frá tímabilinu 2005-06. Þórsarar enduðu þá í 12. sæti af fjórtán liðum í efstu deild. Næstu ár léku þeir undir merkjum Akureyrar.
Nokkrar kunnar kempur léku með Þór tímabilið 2005-06. Rúnar Sigtryggsson var spilandi þjálfari liðsins og markahæsti leikmaður þess var landsliðsmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson. Og þetta tímabil lék bróðir hans, Aron Einar, tvo leiki með Þór.
Þá var fyrirliði fótboltalandsliðsins enn með annan fótinn í handboltanum og þótti mjög góður á því sviði. Fótboltinn varð þó fyrir valinu á endanum og Aron Einar fór til AZ Alkmaar í Hollandi 2006.
Fyrir fyrsta leik Íslands á heimsmeistaramóti, gegn Argentínu 16. júní 2018, birti Rúnar skemmtilega mynd af þeim Aroni Einari í leik með Þór. Þá var landsliðsfyrirliðinn ekki alveg jafn vígalegur og í dag og líkaminn ekki þakinn húðflúrum.
#tbt það var ekki töluð vitleysan þarna
— Rúnar Sigtryggsson (@RunarSigtryggs) June 21, 2018
Viss um að Captain 6 3 muni á morgun sparka í allt sem hreyfist #NGAISL og leiða liðið áfram á #WorldCup til sigurs https://t.co/SBICFhvAFq pic.twitter.com/L8pmz4mHTc
Aron Einar lék alls fjóra leiki í efstu deild í handbolta og skoraði níu mörk. Hann var aðeins fimmtán ára þegar hann lék sinn fyrsta leik með handboltaliði Þórs. Aron Einar lék einnig fimmtán deildar- og bikarleiki með Þór í fótbolta áður en hann fór til Hollands.
Þór var spáð 10. sæti í Olís-deild karla í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í deildinni. Við hér á Vísi spáðum Þórsurum hins vegar 11. sæti deildarinnar en þeir gera væntanlega allt til að afsanna hana.
Fyrsti heimaleikur Þórs í Olís-deildinni er gegn FH í Höllinni á Akureyri næsta fimmtudag, 17. september.