Manchester United hefur í allt sumar verið orðað við mexíkóska framherjann Raúl Jimenez, sem hefur farið á kostum með Wolves undanfarin tvö tímabil.
Nú fá fréttir um að Jimenez sé á leið til Man Utd byr undir báða vængi, en í gær keyptu Úlfarnir portúgalska framherjann Fabio Silva fyrir metfé.
Silva kemur til Wolves frá Porto á 35 milljónir punda, en Jimenez var keyptur á 30 milljónir punda frá Benfica á síðasta ári.
Talið er að Wolves vilji fá 60 milljónir punda frá Man Utd fyrir Mexíkóann og eru kenningar uppi um að með kaupunum á Silva séu Úlfarnir að búa sig undir að missa Jimenez til United.
Raúl Jimenez er 29 ára og hefur skorað 44 mörk í 99 leikjum fyrir Wolves og væri góð viðbót við framlínu Ole Gunnar Solskjær hjá Rauðu djöflunum. Man Utd gerði sín fyrstu kaup í sumarglugganum á dögunum þegar liðið fékk til sín Donny van de Beek frá Ajax en ljóst er að liðið þarf að styrkja sig enn frekar til að eiga möguleika á að berjast um Englandsmeistaratitilinn.