Kári Árnason verður fyrirliði íslenska landsliðsins á móti Englandi á Laugardalsvellinum á morgun og hann var mættur á blaðamannafund hjá íslenska landsliðinu í dag.
Kári Árnason spilaði sigurleikinn fræga á móti Englandi á EM 2016 en íslenska liðið vann þá 2-1 endurkomu sigur á Englendingum og tryggði sér með því sæti í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar.
Kári Árnason lagði upp jöfnunarmark Ragnars Sigurðssonar í leiknum og átti síðan flottan leik í miðri íslensku vörninni með Ragnari. Ísland komst yfir á 18. mínútu og lokaði síðan á alla sóknartilburði enska liðsins eftir það.
Á blaðamannafundinum var Kári spurður út í enska landsliðið núna í samanburði við enska landsliðið fyrir fjórum árum.
„Þetta er allt annað lið í rauninni þó að það séu nokkrir leikmenn þarna að spila. (Raheem) Sterling er orðinn eldri og betri þó að hann hafi verið með í þessum leik. Sama gildir um (Harry) Kane,“ sagði Kári Árnason.
„Þetta er miklu yngra lið og hlaupgetan er meiri. Það er meiri hraði í þessu liði heldur en var. Það var rosalega mikið sótt á bakvörðinn í gamla liðinu. Núna eru þeir bara að bíða eftir því að kantmennirnir þeirra fái boltann og þá getur allt gerst,“ sagði Kári.
„Þessi framlína þeirra er vissulega á heimsmælikvarða en að sama skapi þekkjum við þá vel og treystum okkur alveg í þetta verkefni. Við klárum það með sóma,“ sagði Kári Árnason.