Íslenska landsliðið verður án sterkra leikmanna á móti nánast fullmönnuðu ensku landsliði í Laugardalnum á morgun en landsliðsþjálfarinn óttast ekki að fá skell.
Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, stýrði íslenska landsliðinu í fyrsta sinn fyrir tveimur árum þegar íslenska liðið spilaði í Þjóðadeildinni í fyrsta sinn.
Sá leikur endaði með 6-0 skelli á móti Sviss og var það því algjör martraðarbyrjun fyrir Hamrén sem landsliðsþjálfara Íslands.
Hamrén kveðst ekki vera smeykur við að tapa leiknum á morgun stórt eins og gerðist gegn Sviss í fyrsta leiknum í síðustu Þjóðadeild. Svíinn er brattur þrátt fyrir að sterka leikmenn vanti í íslenska liðið. Segir allt geta gerst í fótbolta.
„Ég er ekki hræddur því þá ættir þú að vera að gera eitthvað annað. Við verðum samt að bera virðingu fyrir liðum eins og Englandi og Sviss. Þú getur náð góðum úrslitum á móti þessum þjóðum en það getur líka farið illa,“ sagði Erik Hamrén á blaðamannafundinum.
„Ég get nefnt 8-2 sigur Bayern München á Barcelona sem dæmi. Þá vita allir að fótbolti getur verið skrítinn. Ég er ekki hræddur. Við lærðum mikið á þessum tapleik á móti Sviss og mér fannst við sýna það síðan það í hinum leikjunum í Þjóðadeildinni. Við unnum engan þeirra leikja en það sást á frammistöðu liðsins,“ sagði Hamrén.
„Við höfum líka sýnt það í undankeppninni að við getum náð í góð úrslit þrátt fyrir að það vanti hjá okkur lykilmenn,“ sagði Hamrén.