Fótbolti

Engin miskunn hjá Lyon sem æfir fjórum dögum eftir að hafa orðið Evrópumeistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Lyon voru mættar á æfingu í dag, aðeins fjórum dögum eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Lyon voru mættar á æfingu í dag, aðeins fjórum dögum eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. getty/Juanma

Það er skammt stórra högga á milli hjá Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum hennar í Lyon. Á sunnudaginn varð liðið Evrópumeistari fimmta árið í röð og í dag byrjaði liðið aftur að æfa.

Vegna kórónuveirufaraldursins lauk tímabilinu 2019-20 hjá Lyon ekki fyrr en á sunnudaginn, 30. ágúst. Næsta tímabil er handan við hornið en fyrsti leikur Lyon í frönsku úrvalsdeildinni er gegn Paris FC á sunnudaginn, viku eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Lyon sigraði Wolfsburg, 3-1. Sara skoraði þriðja mark Lyon.

Leikmenn Lyon fengu því ekki langt frí eftir að hafa landað Evrópumeistaratitlinum og hófu æfingar á ný í dag eins og sjá má hér fyrir neðan.

Lyon leggur þar lokahönd á undirbúninginn fyrir næsta tímabil en hann hófst fyrr í sumar. Lyon fór þá m.a. í æfingaferð til Póllands þar sem Sara spilaði sína fyrstu leiki fyrir liðið.

Keppni í frönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili var blásin af eftir sextán umferðir og Lyon krýnt meistari. Liðið hefur unnið frönsku deildina fjórtán ár í röð. Lyon vann fjórtán af sextán deildarleikjum sínum á síðasta tímabili og gerði tvö jafntefli.

Íslendingar eiga tvo fulltrúa í frönsku úrvalsdeildinni í vetur; Söru og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem hefur samið við nýliða Le Havre. Hún fer í læknisskoðun hjá félaginu á morgun. Fyrsti leikur Le Havre er gegn Issy á útivelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×