Erlent

Þjóðvarðlið kallað út vegna mótmæla í kjölfar þess að lögregla skaut svartan mann

Andri Eysteinsson skrifar
Lítill hópur mótmælenda í Kenosha.
Lítill hópur mótmælenda í Kenosha. Vísir/AP

Þjóðvarðlið Bandaríkjanna hefur verið kallað út í Wisconsin eftir að mótmælum brutust út eftir svartur maður var í enn eitt skiptið skotinn af lögreglumönnum.

Maðurinn sem um ræðir, Jacob Blake, liggur nú á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn í bakið af stuttu færi af lögreglumanni í borginni Kenosha eftir að hafa neitað að hlýða fyrirmælum þeirra og reynt að setjast inn í bíl sinn. Ekki liggur fyrir af hverju lögregla hafði afskipti af Blake.

Myndband náðist af atvikunum og eftir að það birtist brutust út mikil mótmæli í Wisconsin og hafa þau breiðst út víðar um Bandaríkin. Hefur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, Joe Biden, auk ríkisstjórans Tony Evers gagnrýnt lögregluna.

Biden hefur kallað eftir að málið verði rannsakað til hlítar en verkalýðsfélag lögreglumanna í Kenosha hefur harðlega gagnrýnt viðbrögð Evers og sagt ummæli sem hann lét falla vera óábyrg og ekki væru öll kurl komin til grafar í málinu.

Mótmælendur flykktust að höfuðstöðvum lögreglunnar í Kenosha og hrópuðu mótmælendur slagorð gegn lögreglunni og kveikt var í ökutækjum á meðan að lögrega beitti táragasi.

Búist er við því að mótmæli haldi áfram en ríkisstjórinn Evers hefur kallað út 200 mann þjóðvarðlið til að aðstoða lögregluna í borginni Kenosha.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×