Spænska knattspyrnufélagið Barcelona greindi frá því að Miralem Pjanić – nýjasta viðbót liðsins – hefði greinst með kórónaveiruna.
Samkvæmt frétt BBC þá líður hinum þrítuga Bosníumanni vel og er í einangrun heima hjá sér á Ítalíu. Hann mun ferðast til Katalóníu eftir 15 daga.
Pjanić var hluti af samning Ítalíumeistara Juventus og Barcelona en Börsungar fengu bæði pening sem og Pjanić fyrir brasilíska miðjumanninn Arthur.
Barca lauk tímabilinu eins illa og hægt er. Eftir að gefa eftir í baráttunni um spænska meistaratitilinn þá gafst liðið í raun upp gegn Bayern Munchen í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Lauk leiknum með 8-2 sigri Bayern.
Ronald Koeman, nýráðinn þjálfari liðsins, hefur nóg að gera en það þarf að taka til í leikmannahópi félagsins, sannfæra Lionel Messi um að vera áfram og svo að koma liðinu í almennilegt form á undirbúningstímabilinu.
Leikmenn félagsins – líkt og aðrir fótboltamenn í stærstu deildum Evrópu – fá ekki langt sumarfrí en liðið hefur leik í spænsku úrvalsdeildinni að nýju þann 12. september.