Bændasamtökin auglýstu nýlega eftir fólki sem er tilbúið að taka að sér tímabundin afleysingastörf í sveitum veikist bændur og þeirra fjölskyldur á búunum vegna Covid-19 og geta ekki sinnt búverkum. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Guðbjörg Jónsdóttir er verkefnisstjóri hjá Bændasamtökunum og heldur utan um afleysingaþjónustuverkefnið.
„Það eru komnir tæplega hundrað einstaklingar á lista hjá okkur. Maður er alveg snortin yfir þessu hvað landinn er að hugsa til bænda og er tilbúin til að aðstoð. Þetta er bæði fólk, sem er með reynslu og þekkingu og eru búfræðimenntaðir. Svo eru líka ýmsir, sem hafa misst vinnuna í gegnum ferðaþjónustuna og starfandi ráðunautar, allt mjög frambærilegir einstaklingar alls staðar af landinu,“ segir Guðbjörg alsæl.
Guðbjörg segir að nú séu sex bændur í Vestur Húnavatnssýslu smitaðir af kórónaveirunni en allir hafi þeir getað reddað sér með aðstoð frá fjölskyldunni eða af öðrum bæjum. Ekki er vitað til þess að aðrir bændur séu veikir og í einangrun.
„Nú er veiran náttúrulega bara að byrja í þessu ferli og sauðburður byrjar eftir mánuð, það er mesta áhyggjuefnið hvernig við mætum því.“

„Já, sem aldrei fyrr. Þá er ljóst að við verðum að tryggja matvælaöryggi. Það er sem betur fer til nógur matur á Íslandi og við getum vel fætt þjóðina og kannski er það skrýtið að það sé verið að flytja inn mat á þessum tíma því við höfum mat hér,“ segir Guðbjörg.
Þeir sem vilja skrá sig á lista í afleysingaþjónustu bænda geta gert það í gegnum netfangið afleysing@bondi.is