Handbolti

Smit hjá hand­bolta­liði Stjörnunnar sem er komið í sótt­kví

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tandri Már Konráðsson og félagar eru komnir í sóttkví næstu fjórtán daga. Hér er Tandri í bikarúrslitunum gegn ÍBV um síðustu helgi.
Tandri Már Konráðsson og félagar eru komnir í sóttkví næstu fjórtán daga. Hér er Tandri í bikarúrslitunum gegn ÍBV um síðustu helgi. vísir/daníel
Allur leikmannahópur Stjörnunnar Olís-deild karla í handbolta er kominn í sóttkví eftir að upp greindist smit í hópnum. Þetta staðfesti Pétur Bjarnason, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, í samtali við Vísi í kvöld.

Ekki fékkst staðfest hver var sá smitaði innan hópsins.

Pétur segir að hann hafi fengið fregnir af þessu í dag, að komið hafi upp smit í leikmannahópnum og því hafi allir leikmenn meistaraflokks karla hjá félaginu verið sendur í sóttkví næstu fjórtán daga.

Hann segir að mikil óvíssa sé um framhaldið. Pétur segir að það verði fróðlegt að sjá hvernig HSÍ ætli að klára mótið og efast um að hægt verði að setja mótið af stað aftur eftir hléið, sem nú hefur verið gert, enda Stjörnuliðið þá nýkomið úr sóttkví.

Hann bætti einnig við að ekki væri víst að Stjarnan yrði eina liðið sem myndi lenda í sóttkví og menn gætu takmarkað hreyft sig í stofunni heima hjá sér.

Stjarnan hefur spilað þrjá leiki síðustu átta daganna. Undanúrslit í bikarnum gegn Aftureldingu, bikarúrslitaleik gegn ÍBV og leik gegn Fram í Olís-deildinni fyrr í vikunni.

Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið sem varðar íþróttalið hér á landi en Þorsteinn Már Ragnarsson og fleira íþróttafólk hefur verið í sóttkví síðustu daga. Einnig var leik frestað í 1. deild karla í körfubolta í kvöld eftir að upp kom grunur um smit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×