Íslenska kvennalandsliðið vann 1-0 sigur á Norður Írlandi í fyrsta leik sínum á Pinatar æfingamótinu á Spáni. Ísland á eftir að mæta Úkraínu og Skotlandi á árinu.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði eina mark íslenska liðsins á 24. mínútu þegar fyrirgjöf hennar breyttist í skot og sveif laglega yfir markvörð norður írska liðsins.
Hin sextán ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik og hélt marki sínu hreinu. Cecilía Rán var vel á verði í markinu og varði einu sinni mjög vel í horn.
Íslenska liðið hefur oft spilað mun betur en í dag og þurfti greinilega á þessari leikæfingu að halda.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ein af þremur sem léku sinn fyrsta landsleik í dag. Natasha Moraa Anasi kom inn á í hálfleik og Hildur Antonsdóttir spilaði síðustu mínúturnar.
Dagný Brynjarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir spiluðu bara fyrri hálfleikinn og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir tók við fyrirliðabandinu af Söru í hálfleik.
Það er hægt að horfa aftur á leikinn hér fyrir neðan.
Dagný tryggði Íslandi sigur og Cecilía hélt hreinu í fyrsta leik
