Ronald Koeman hefur verið ráðinn þjálfari Barcelona næstu tvö árin. Þetta var staðfest nú í morgun.
Koeman tekur við af Quique Setien sem var rekinn eftir að Barcelona var niðurlægt af Bayern Munchen í Meistaradeildinni, 8-2.
Honum mistókst einnig að vinna spænska meistaratitilinn eftir að hafa tekið við Barcelona í janúar á þessu ári.
Koeman var síðast í starfi hjá hollenska landsliðinu þar sem hann hafði gert góða hluti en hann tók við Hollandi árið 2018.
Þar á undan var hann þjálfari Gylfa Sigurðssonar hjá Everton en hann var einungis í rúmt ár í starfi hjá félaginu.
Hann var sá sem fékk Gylfa til félagsins, sumarið 2017.
Fróðlegt verður að sjá hvað verður um lið Barcelona á næstu leiktíð en mikið hefur verið rætt um að hrist verði vel upp í leikmannahópi félagsins.
Lionel Messi er einnig sagður hafa beðið um að fá að fara en óvíst er hvort að þær sögusagnir haldi vatni.
Welcome home, @RonaldKoeman!
— FC Barcelona (@FCBarcelona) August 19, 2020
#KoemanCuler