Eintracht Frankfurt fór nokkuð örugglega áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 2-2 jafntefli gegn Salzburg í Austurríki. Frankfurt vann fyrri leik liðanna 4-1. Var þetta síðasti leikur 32-liða úrslita Evrópudeildarinnar en hinum einvígunum lauk í gærkvöld.
Fyrir leik var ljóst að Salzburg átti ekki mikla möguleika en heimamenn komust þó í 1-0 eftir 10. mínútna leik þökk sé marki Andreas Ulmer.
Andre Silva, portúgalski framherji Frankfurt, jafnaði metin fyrir gestina frá Þýskalandi fyrir hálfleik og staðan 1-1 er flautan gall. Jerome Onguene kom Salzburg aftur yfir á 72. mínútu en Andre Silva jafnaði aftur 11 mínútum síðar fyrir gestina og þar við sat.
Lokatölur 2-2 og Frankfurt því áfram, lokatölur einvígisins 6-3 Þjóðverjunum í vil.
Ferðalag Frankfurt í 16-liða úrslitum er aftur í styttri kantinum en liðið mætir Basel frá Sviss.
