Handbolti

Patrekur tekur við Stjörnunni | Lítur á liðið sem sofandi risa

Sindri Sverrisson skrifar
Patrekur Jóhannesson gerði Selfoss að Íslandsmeistara í fyrsta sinn á síðustu leiktíð.
Patrekur Jóhannesson gerði Selfoss að Íslandsmeistara í fyrsta sinn á síðustu leiktíð. vísir/daníel

Patrekur Jóhannesson tekur við sem þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handbolta í sumar og hefur skrifað undir samning til þriggja ára við sitt gamla félag.

Rúnar Sigtryggsson mun því hætta sem þjálfari Stjörnunnar eftir keppnistímabilið en hann er með Stjörnuna í 8. sæti Olís-deildarinnar nú þegar styttist í úrslitakeppnina.

Patrekur er uppalinn Stjörnumaður og Garðbæingur og auk þess að leika með liðinu við góðan orðstír þjálfaði hann liðið árin 2008-2010. Hann hefur síðan þá stýrt bæði Haukum og Selfossi til Íslandsmeistaratitils auk þess að þjálfa Val, karlalandslið Austurríkis og félagslið í Þýskalandi og Danmörku, nú síðast Skjern.

„Ég hlakka til að taka á ný við þjálfarastarfi hjá Stjörnunni,“ segir Patrekur í fréttatilkynningu. „Félagið býr að fornri frægð í handbolta, ekki síst kvennaliðið, og hér eru mörg sóknarfæri. Ég lít á Stjörnuna eins og sofandi risa sem getur heldur betur látið að sér kveða. Liðið er nú þegar vel skipað undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. Miklu máli skiptir að hlúa vel að unglingastarfinu þannig að börn í Garðabæ geti stundað íþróttina sér til ánægju og meistaraflokkar félagsins notið þess þegar fram í sækir. Ég hef verið svo heppinn að hafa stýrt tveimur liðum til sigurs á Íslandsmóti, Haukum og Selfossi. Á báðum stöðum var öflugt unglingastarf forsenda góðs árangurs,“ segir Patrekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×