Tap Icelandair Group á síðasta ári jókst lítillega og nam 7,1 milljarði króna (57,8 milljónum dala) samanborið við 6,8 milljarða króna (55,6 milljónir dala) árið 2018.
Á sama tíma flutti Icelandair 25% fleiri farþega til Íslands árið 2019 en árið 2018.
Tekjur félagsins á fjórða ársfjórðungi síðasta árs námu 39,2 milljörðum króna (319,2 milljónum dala) og hækka um 7% samanborið við sama tímabil árið áður, er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Áhrif Boeing 737 MAX véla mikil
Félagið segir að „fordæmalaus áhrif af kyrrsetningu MAX véla“ séu meginástæða neikvæðrar afkomu á síðasta ári. Metur Icelandair Group að neikvæð nettóáhrif á EBIT félagsins vegna kyrrsetningar vélanna séu um 12 milljarðar króna (100 milljónir dala) á tímabilinu.
„Uppgjör fjórða ársfjórðungs er í samræmi við væntingar stjórnenda og afkomuspá félagsins. Við bættum rekstur félagsins með umbótum í leiðakerfinu, bættri tekjustýringu, betri nýtingu starfsmanna og með því að bæta stundvísi félagsins sem dró úr kostnaði vegna raskana í leiðakerfinu,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group í tilkynningunni.
Lausafjárstaða félagsins nam um 37,1 milljarði króna (301,6 milljónum dala) í lok ársins 2019 og nam eigið fé ríflega 59,3 milljörðum króna (482,5 milljónum dala). Eiginfjárhlutfall félagsins var 29%.
Krefjandi ár hjá Icelandair
Bogi segir að árið í heild hafi verið krefjandi fyrir Icelandair Group vegna kyrrsetningar fyrrnefndra MAX véla. Hún hafi haft í för með sér tapaðar tekjur, aukinn kostnað og takmörkun á nýtingu áhafna og flota félagsins.
„Styrkur og sveigjanleiki leiðakerfisins gerði það að verkum að félagið gat aðlagað leiðakerfið hratt og örugglega að breyttum markaðsaðstæðum. Aukning á fjölda farþega til Íslands um 25% á árinu, þrátt fyrir kyrrsetningu MAX vélanna, ber þess merki.“