Umfjöllun og viðtöl: HK - Stjarnan 22-27 | Stjörnumenn sterkari á lokakaflanum

Gabríel Sighvatsson skrifar
Ólafur Bjarki skoraði sex mörk gegn sínu gamla liði.
Ólafur Bjarki skoraði sex mörk gegn sínu gamla liði. vísir/bára

Kópavogsliðið hefur verið frískt eftir áramót og Stjarnan vann frábæran sigur í bikarnum í vikunni.

Heimamenn byrjuðu betur og komust í 10-6 um miðbik fyrri hálfleiks. Þá tók við slakur kafli hjá þeim og Stjörnumenn náðu að jafna og komast yfir áður en hálfleikurinn var úti.

Í seinni hálfleik hélt Stjarnan að mestu leyti forystunni en þegar 15 mínútur voru eftir tók HK gott áhlaup og náði að jafna leikinn og voru með mikinn meðbyr.

Þá hrundi leikur liðsins hinsvegar og Stjarnan kláraði þennan leik sannfærandi 27-22.

Af hverju vann Stjarnan?

Garðbæingar voru betri á lokakafla leiksins á meðan HK-ingar gerðu mikið af mistökum og náði ekki að fylgja eftir góðum mínútum til að jafna leikinn.

Stjörnumenn sýndu meiri gæðu og reynslu til að loka leiknum, eitthvað sem HK er ekki með.

Hvað gekk illa?

Hvorugt liðið var upp á sitt besta í dag og það sást vel. HK-ingar voru með góða forystu í fyrri hálfleik en misst hana síðan niður og voru undir í hálfleik.

Það gerðist svipað í seinni hálfleik þegar allt benti til þess að heimamenn væru að koma til baka og að fara að vinna leikinn, þá kemur hrina af mistökum sem kosta þá leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Markmenn liðanna voru bestir í dag sem segir kannski ýmislegt um leikinn. Brynjar Darri Baldursson var með 16 varin skot og var mjög öflugur fyrir Stjörnumenn en honum óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn.

Hjá HK-ingum var Stefán Huldar Stefánsson með 10 varin skot eftir að hafa komið inn á um miðjan fyrri hálfleik.

Hvað gerist næst?

Eftir tap KA í dag er Stjarnan komin með 5 stiga forskot á þá en þessi lið mætast í næstu umferð.

HK er enn á botninum og fer í heimsókn í Safamýrina á móti 3. liðinu í umsplisbaráttunni.

Rúnar: Við urðum að vinna

„Það eru stigin sem telja og ég er mjög ánægður að við náðum að landa þeim.“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn í dag.

Þrátt fyrir ekki góða frammistöðu þá vann Stjarnan og var Rúnar ánægður með það.

„Kannski ennþá ánægðari með það að við erum ekki að spila vel. Við áttum í miklum erfiðleikum, sumir voru að kvarta yfir þreytu og það er búið að spila þétt síðustu daga. Það er jákvætt að við vinnum leiki þegar við erum að spila illa.“

„Það er í rauninni bara einn leikur af þessum 4 sem við spilum eftir áramót sem hefur verið spilaður af almennilegum krafti og við þurfum að kveikja betur í okkur.“

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Stjörnuna en eftir því sem leið á leikinn komust þeir betur í takt við hann og komu vel til baka og voru yfir í hálfleik.

„Við færðum vörnina aðeins aftar, hún var alltof framarlega og Brynjar Darri kom þá í markinu um leið og hélt sínu góða formi frá því í síðasta leik. Við fórum aðeins að hjálpa honum, við vorum ekkert að hjálpa honum í byrjun.“

Mikið álag er búið að vera á leikmönnum sem voru að spila bikarleik á miðvikudag.

„Við vorum að spila frábæran leik á miðvikudag og þetta er þriðji leikurinn á einni viku og menn fóru kannski svolítið hátt upp að vera komnir í undanúrslit í bikar. Þetta var leikur sem við urðum að vinna. Okkar markmið var að komast í "Final Four" og seinna markmiðið var að komast í úrslitakeppnina og þetta var leikur sem við þurftum að vinna til að komast þangað.“

KA tapaði í dag fyrir Selfossi og Rúnar gat glaðst yfir því.

„Þetta eykur möguleikana en þetta er langt frá því að vera í höfn, við eigum KA næst og það er leikur sem við verðum að vinna til að gefa okkur meira andrými.“

Elías Már: Gerumst sekir um hrikaleg mistök

Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, var vonsvikinn með úrslitin í dag.

„Mér fannst "momentum-ið" vera með okkur í stöðunni 21-21, 6 mínútur eftir. Svo töpum við þessum síðustu 6 mínútum 6-1.“ sagði Elli.

Seinni hálfleikur var að þróast ágætlega fyrir Ella og hans menn en þeir náðu að jafna með góðu áhlaupi en þá tóku við slæmar lokamínútur.

„Við gerumst sekir um hrikaleg klaufamistök. Við töpum stöðunni maður á mann, tvisvar eða þrisvar sem var ekki búið að vera vandamál, klikkum á vítum og dauðafærum. Það er dýrt á móti liði með jafnmikil gæði og Stjarnan er með.“

HK-ingar eru í erfiðum málum. Fyrir utan að vera á botni deildarinnar, þá er hópurinn ekki mjög breiður og margir leikmenn fjarverandi vegna meiðsla.

„Við erum ekki með marga leikmenn fyrir utan núna. Það eru meiðsli, Bjarki (Finnbogason) sleit krossband í síðasta leik, Kristófer Andri (Daðason) er meiddur og Blær (Hinriksson) er að koma til baka. Þetta er pínu erfitt en við erum að reyna að gera gott úr því sem við höfum og ég held það hafi ekki verið lítið eftir á tanknum, bara klaufaskapur í lokin að gera ekki betur.“

„Auðvitað munar um hvern einasta mann í svona liði sem við erum við og það er búið að þynnast og þynnast í hópnum í allan vetur. Mér finnst við samt vera búnir að bæta okkur, við erum í hörkuleik við Stjörnuna sem er með frábært lið, mjög vel mannað lið. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir framlagið og vinnusemina en því miður þá er það of dýrt að gera svona mikið af mistökum.“

Elli var ekki sáttur með hvernig hans menn spiluðu þegar þeir voru í forystu og höfðu möguleikann á að taka hana aftur í seinni hálfleik.

„Í stöðunni 10-6 þá gerum við okkur seka um svipaða hrinu þar sem menn eru farnir að gera einhverjar tilraunir sóknarlega og það kostar okkur mikið. Hvort það er reynsluleysi eða hvað veit ég ekkert um. Því miður er það alltaf þannig að þegar við eigum möguleika þá fara menn að prófa eitthvað og við fáum það alltaf tvöfalt í bakið. Við verðum að fara að læra af því.“

HK er eins og áður sagði á botni deildarinnar og staða þeirra verður æ erfiðari með hverjum tapleiknum.

„Við erum ekkert að horfa á það. Við erum bara fúlir núna og svo Fram í næstu umferð og við förum í þann leik til þess að reyna að vinna hann. Við ætlum að æfa vel í vikunni og reyna að bæta okkur og svo sjáum við í vor hvernig þetta endar. Við erum ekkert að pæla í því, það er bara áfram gakk, næsti leikur og svo sjáum við hvernig fer.“ sagði Elli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira