Íslenskur leiðsögumaður bjargaði tveimur börnum ferðamanna úr bráðri lífshættu í dag. Börnin, sem sögð eru hafa verið um fjögurra til fimm ára og sex til sjö ára, voru að leika sér í fjörunni á meðan foreldrar þeirra horfðu á. Þá skall stór alda á þeim og drógust þau út í sjó. Maðurinn hljóp út í og tókst að ná báðum börnunum á land.
Leiðsögumaðurinn, sem vildi ekki láta nafn síns getið þegar hann ræddi við blaðamann Ríkisútvarpsins, segist alltaf stressaður þegar hann fer með ferðamenn í Reynisfjöru.
Samstarfsmaður leiðsögumannsins sagði frá atvikinu í hópnum Bakland Ferðaþjónustunnar á Facebook í kvöld. Þar segir að leiðsögumaðurinn hafi þurft að hafa verulega fyrir því að ná börnunum í land. Annað hafi verið komið töluvert frá landi.
Leiðsögumaðurinn var í fylgd með ferðamönnum frá Þýskalandi þegar þau sáu foreldrana og börnin í fjörunni. Í áðurnefndri færslu segir að hann hafi strax fengið ónot í magann þegar hann sá börnin leika sér í fjörunni og var að gera sig líklegan til að hafa afskipti af þeim þegar aldan skall á börnunum.
„Þá tók leiðsögumaðurinn á rás og á meðan voru foreldrarnir eins og steinrunnir og vissu ekki hvað þau áttu að gera. Á meðan byrjuðu börnin að sogast lengra út. Á þessum tímapunkti voru bæði börnin fljótandi á maganum með andlitin á kafi í sjónum,“ segir í færslunni.
Á meðan leiðsögumaðurinn fór á eftir barninu sem var komið lengra frá landi reyndi faðir þeirra að ná hinu á land. Það gekk þó ekki vel hjá honum og endaði leiðsögumaðurinn á að taka það líka á leiðinni í land með hitt. Börnunum varð ekki meint af en var mjög brugðið.
Í samtali við RÚV segir leiðsögumaðurinn að fjölskyldan hafi verið horfin skömmu seinna, þegar hann hafi ætlað að athuga hvort það væri í lagi með þau. Hann segist hafa tilkynnt lögreglu atvikið og bætir við að skilti dugi ekki til í Reynisfjöru. Ferðamenn séu nánast í lífshættu þar, hvert sem þau snúi sér.