Átta liða úrslit Geysisbikars karla í körfubolta klárast ekki í kvöld eins og áætlað var.
Mótanefnd hefur frestað leik Tindastóls og Þórs Akureyrar í Geysisbikar karla sem leika átti í kvöld fyrir norðan á Sauðárkróki vegna ófærðar yfir Öxnadalsheiði en þar er vegurinn lokaður nú þegar og vonskuveður.
Þetta er gert að höfðu samráði við sérfræðinga Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar sem og í samráði við bæði félögin.
Leikið verður annað kvöld þriðjudaginn 21. janúar og það verður því síðasti leikur átta liða úrslitanna.
Það verður samt dregið í undanúrslit bikarkeppninnar í hádeginu á morgun og verða því Tindastóll/Þór Akureyri saman í einni kúlu í skálinni góðu.
Leik Tindastóls og Þórs frestað en samt dregið á morgun
