Rúna Magnúsdóttir, höfundur bókanna Branding Your X-Factor, The Story of Boxes og The Good, The Bad and The Ugly, segir mikilvægt að setja sér markmið í starfi.
Rúna er stofnandi The Change Makers og sérhæfir sig í að hjálpa fólki að byggja upp sitt persónulega vörumerki. Hún segir fólk þekkja vel að markmið fyrirtækisins og áætlanir liggi skýrt fyrir í ársbyrjun auk þess sem margir setja sér markmið um heilsu og lífstíl um áramót. Fleiri mættu hins vegar setja sér markmið í starfi fyrir ár hvert enda leiði slík markmiðasetning oft að aukinni vellíðan í starfi og hjálpar fólki við að verða meðvitaðara um styrkleika sína eða á hvaða sviðum það vill bæta sig.
Rúna segir sumt fólk enn nokkuð fast í því viðhorfi að vinnan snúist aðeins um þá nauðsyn að afla sér tekna til að lifa. Hið rétta er að flestir geta stýrt sinni eigin líðan í vinnu með því að vera meðvitaðari um sín eigin viðbrögð eða viðhorf til starfsins.
Hér eru þrjú atriði sem Rúna segir „skotheldar leiðir” til að setja sér markmið í starfsframa fyrir árið 2020.
1) Lærðu af því sem var. Hugsaðu til baka sl 6-12 mánuði og skráðu niður fimm atriði sem stóðu uppúr hjá þér árið 2019, eitthvað sem þú ert ánægð/ur eða stolt/ur af. Hvað varstu að gera? Skráðu svörin þín niður og leyfðu þér að skoða þau nánar.
2) Settu þér skýra sýn um hver þú vilt vera í vinnunni og hvað fyllir þig eldmóði. Hvað viltu vera þekkt/þekktur fyrir í vinnunni? Hvað er það sem fyllir þig eldmóði? Til að hjálpa þér með þennan lið er gott að skrifa niður fimm setningar sem þú botnar en hefjast á:
„Þegar lífið mitt í vinnunni er fullkomið er ég …. “
Þegar þessi listi er tilbúinn skaltu tímaáætla hvert markmið og skrá við hverja setningu hvenær þú vilt vera komin á þann stað að setningin endurspegli þig og starf þitt. Hafðu þennan lista hjá þér, á tölvunni, símanum eða útprentaður í seðlaveskinu.
Með því að setja athyglina þína á það sem þú vilt hafa meira af og taka ákvarðanir sem færa þig nær því sem gefur þér meiri lífsfyllingu í vinnunni, getur þú notað listann sem mælanlegt tæki á framgang markmiðasetningarinnar.
3) Gefðu þér svigrúm til að efla jákvætt innra samtal
Að ná markmiðum sínum eða að auka á ánægju í starfi þýðir að þú þarft að gefa þér svigrúm og rými til að efla þitt eigið innra samtal því það er einmitt hið innra samtal sem kveikir ósjálfrátt á einhverjum tilfinningum. Þessar tilfinningar geta bæði eflt þig eða dregið þig niður. Taktu eftir því hvernig þú talar við og um sjálfa þig og vinnuna, og æfðu þig í að snúa neikvæðu sjálfstali yfir í jákvætt sjálfstal. Mundu! Æfingin skapar meistarann.
Notaðu þessar þrjár leiðir í hvert skipti sem þú vilt taka stöðuna og endurstilla þig inná það sem fær þig til að vaxa og dafna.”