Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að Riyad Mahrez geti ekki meiðst því hann sé ekki með vöðva í fótunum.
Mahrez hefur leikið einkar vel fyrir City í vetur. Í 18 leikjum í ensku úrvalsdeildinni hefur Alsíringurinn skorað sjö mörk og gefið sjö stoðsendingar. Mahrez er á sínu öðru tímabili hjá City.
„Munurinn á þessu tímabili og því síðasta er að hann spilar fleiri mínútur. Hann spilaði líka vel á síðasta tímabili. Hann elskar að spila fótbolta,“ sagði Guardiola.
Spánverjinn kom svo með áhugaverða skýringu á því af hverju Mahrez hefur spilað jafn mikið í vetur og raun ber vitni.
„Hann getur ekki meiðst því þú sérð að það eru engir vöðvar í fótunum á honum,“ sagði Guardiola.
Mahrez var valinn leikmaður ársins á Englandi þegar Leicester City varð Englandsmeistari fyrir fjórum árum. Hann varð einnig enskur meistari með City í fyrra.
Segir að Mahrez meiðist ekki því hann sé ekki með vöðva í fótunum
