Erlent

Hvíta­björninn aflífaður utan við Longyearbyen

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hvítabjörninn á rölti um Longyearbyen.
Hvítabjörninn á rölti um Longyearbyen. Mynd/Sýslumaðurinn, Svalbarða.

Hvítabjörninn, sem heimsótt hafði aðalbæ Svalbarða, Longyearbyen, nokkrum sinnum yfir jól og áramót, var aflífaður í gær, nýársdag, samkvæmt ákvörðun sýslumannsins á Svalbarða. Björninn var þá staddur í Hanaskogdalen um sjö kílómetra norðan við bæinn, handan Aðventufjarðar. 

„Ísbjörninn var ekki aflífaður vegna neyðarástands heldur vegna þess að hann hefur síðustu daga sýnt af sér óvenjulega hegðun með því að sækja í byggðina í Longyearbyen og skapa þannig hættu fyrir fólk í bænum,“ segir sýslumaðurinn Kjerstin Askholt í fréttatilkynningu á heimasíðu embættisins, sem staðarblaðið Svalbardposten greinir frá. 

Það var á annan dag jóla, 26. desember, sem hvítabjörninn sást fyrst á rölti um aðalgötuna í Longyearbyen. Hann var þá hrakinn úr bænum og út í óbyggðir, meðal annars með þyrlu. Björninn mætti hins vegar aftur í bæinn tveimur dögum síðar, þann 28. desember, og sást þá snuðra í kringum veitingahús. Enn var hann flæmdur burt, með bílum og þyrlu. Hann birtist svo í þriðja sinn í bænum upp úr miðnætti á nýársnótt.

Hvítabjörninn reyndist vera sjö ára karldýr, sem einnig hafði heimsótt Longyearbyen árið 2016.Mynd/Sýslumaðurinn, Svalbarða.

„Við höfum gert margar tilraunir til að leysa ástandið á annan hátt en að drepa björninn, en án árangurs og án þess að björninn hafi brugðist við eins og við vildum. Á þeim tíma ársins þegar það er dimmt allan sólarhringinn höfum við mjög lélega yfirsýn. Við höfum ekki mannafla til tryggja öryggi íbúanna allan sólarhringinn,“ segir sýslumaður. 

„Vegna þess að það hefur ekki tekist að flæma hann burt þorðum við ekki lengur að taka áhættuna á ástandi sem við höfðum ekki lengur fulla stjórn á. Svo að við ákváðum að ekki væri um annað að ræða en að aflífa björninn,“ segir ennfremur í tilkynningu sýslumanns. 

Sá möguleiki hafði einnig komið til tals að svæfa björninn og flytja hann enn lengra brott með þyrlu. Það reyndist ekki gerlegt vegna þess að ekki var næg sérþekking á hvítabjörnum til taks í Longyearbyen um þessi jól. 

Björninn reyndist vera sjö ára karldýr. Eftir að hann var felldur kom í ljós að sami björn hafði einnig heimsótt Longyearbyen árið 2016 en þá verið svæfður og fluttur burt með þyrlu.

Fréttastofa Stöðvar 2 fór um slóðir hvítabjarna á Svalbarða árið 2011 og sýndi þá þessa frétt:


Tengdar fréttir

Forðast að skjóta hvítabirnina á Svalbarða

Á Svalbarða forðast menn í lengstu lög að skjóta hvítabirni, enda alfriðaðir, og ef slíkt gerist kallar það undantekningalaust á lögreglurannsókn. Kristján Már Unnarsson var á ísbjarnarslóðum á Svalbarða.

Skutu hvítabjörn til bana í nauðvörn

Litlu mátti muna að illa færi fyrir manni og konu þegar trylltur hvítabjörn reyndi að brjótast til inngöngu í kofa þar sem þau voru stödd við Hornsund á Svalbarða á sunnudag. Maðurinn skaut björninn og drap hann með skammbyssu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×