Fyrsti leikur ársins í Dominos deild kvenna fór fram í Hafnarfirði í dag þar sem Haukakonur fengu KR í heimsókn en bæði lið eru að berjast í efri hluta deildarinnar.
Úr varð hörkuleikur þar sem heimakonur voru þó í forystu stærstan hluta leiksins og fór að lokum svo að Haukar unnu þriggja stiga sigur, 72-69.
Randi Brown fór mikinn í liði Hauka; skoraði 23 stig og tók 11 fráköst og hjá KR var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 27 stig.
Þetta er fimmti sigur Hauka í röð en þær lögðu topplið Vals að velli í síðustu umferð fyrir jól. Munar nú aðeins tveimur stigum á KR og Haukum í 3. og 4.sæti deildarinnar.
