Starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar og björgunarsveitarmenn hafa komið flutningaskipinu Franciscu upp að bryggju í Hafnarfirði. Skipið, sem er frá Hollandi, hundrað metra langt og fjögur þúsund tonn, losnaði frá höfn í morgunsárið. Aftakaveður er á svæðinu.
Magnús Þórisson starfsmaður Hafnarfjarðarhafnar segir í samtali við Vísi að skipið hafi rekið upp í grjótagarðinn en búið sé að ná því frá honum. Viðbragðsaðilar vinna að því að binda skipið.
„Það er ókyrrð við bryggjuna og það verður sjálfsagt erfitt,“ segir Magnús.

Hann telur um ellefu skipverja um borð í Franciscu. Áhafnir á dáttarbátnum Magna og bátnum Hamri, sem er á vegum hafnarinnar, aðstoða við að koma skipinu upp að bryggju.
Skipstjóri Franciscu hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 5:30 og sagði skipið vera að reka upp í olíugarðinn. Varðskipið Týr var þegar í stað kallað út, sem og dráttarbátarnir frá Hafnarfirði og Reykjavík.
Hér að neðan má sjá myndir af stöðu Franciscu í höfninni. Fyrra skjáskotið er tekið af vef Marine Traffic snemma á níunda tímanum en hið síðara, þar sem sjá má skipið komið upp að bryggjunni, er tekið skömmu fyrir klukkan níu.
Fréttin hefur verið uppfærð.


