Starfsmaður Landsnets sem fluttur var á sjúkrahús í gær eftir að skammhlaup varð í tengivirkinu á Rangárvöllum er við góða heilsu og er kominn heim af sjúkrahúsi. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Landsnets.
Útleysing spennis í tengivirkinu á Rangárvöllum olli víðtæku rafmagnsleysi í Eyjafirði um hádegi í gær og sagði Einar Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs hjá Landsneti, að spennirinn hafi leyst út þegar starfsmaðurinn var við vinnu í tengivirkinu.
Ekki urðu skemmdir á búnaði í tengivirkinu og strax í gær lauk hreinsun og viðgerð. Þegar hefur úttekt á atvikinu verið hafin og munu, að sögn Landsnets, ráðstafanir verða gerðar til að koma í veg fyrir atvik eins og þetta.