Fótbolti

Jón Guðni skiptir um félag

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Guðni Fjóluson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Krasnodar.
Jón Guðni Fjóluson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Krasnodar. VÍSIR/GETTY

Knattspyrnumaðurinn Jón Guðni Fjóluson er á leið til Íslands eftir að tímabilinu í Rússlandi lauk í gærkvöld og ljóst er að hann spilar ekki fleiri leiki fyrir Krasnodar.

Jón Guðni og Krasnodar hafa komist að samkomulagi um riftun samnings en miðvörðurinn átti eftir eitt ár af samningstíma sínum, eftir að hafa komið til Krasnodar frá Norrköping sumarið 2018.

Krasnodar tryggði sér í gær 3. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar og þar með sæti í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu á komandi leiktíð.

„Þeir mega bara vera með átta útlendinga í liðinu en eru með tólf,“ sagði Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Jóns Guðna, við Fotbollskanalen í Svíþjóð þegar hann útskýrði af hverju samningnum hefði verið rift. Sagði umboðsmaðurinn það hafa verið vilja beggja aðila. Hann vildi lítið gefa uppi um hvert næsta skref Jóns Guðna, sem á að baki 16 A-landsleiki, yrði.

„Hann fer núna heim til Íslands og síðan sjáum við hvað framtíðin ber í skauti sér; hvort hann heldur áfram í Rússlandi eða Evrópu eða Skandinavíu. Við sjáum til. En það hafa engar viðræður átt sér stað við sænskt félag,“ sagði Magnús Agnar, en Jón Guðni hefur leikið með bæði Norrköping og Sundsvall í Svíþjóð, eftir að hafa byrjað atvinnumannsferilinn með Beerschot í Belgíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×