Amadou Gon Coulibaly, forsætisráðherra Fílabeinsstrandarinnar, lést eftir að hann veiktist á miðjum ríkisstjórnarfundi í dag, 61 árs að aldri. Coulibaly var nýkominn heim úr meðferð vegna hjartveiki í Frakklandi en hann átti að vera forsetaframbjóðandi stjórnarflokksins í forsetakosningum í haust.
Mikil óvissa er sögð ríkja um forsetakosningarnar eftir andlát Coulibaly sem var talinn sigurstranglegur. Hann var fluttur á sjúkrahús eftir að hann kenndi sér meins á ríkisstjórnarfundi og andaðist þar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hann gekkst undir hjartaígræðslu árið 2012.
Alassane Outtara, forseti, segir sorg ríkja í Vestur-Afríkulandinu. Hann tilkynnti óvænt að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram aftur sem forseti í mars. Vangaveltur eru nú um að hann gæti neyðst til þess að gefa áfram kost á sér.