Fótbolti

Keane við það að fá sitt fyrsta starf sem aðalþjálfari síðan 2011

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keane er ekki allra og verður áhugavert að sjá hvað gerist ef hann fær starfið í Aserbaídsjan.
Keane er ekki allra og verður áhugavert að sjá hvað gerist ef hann fær starfið í Aserbaídsjan. EPA/KIERAN GALVIN

Írinn Roy Keane virðist vera snúa aftur í þjálfun. Þessi fyrrum fyrirliði Manchester United, og írska landsliðsins, ku vera við það að taka við landsliði Aserbaídsjan. 

Væri það hans fyrsta starf sem aðalþjálfari hjá landsliði en hann var aðstoðarþjálfari Írlands frá árunum 2013 til 2018 þegar Martin O‘Neill þjálfaði liðið. Þá var hann aðstoðarþjálfari Aston Villa árið 2014.

Árið 2011 var Keane – sem þá hafði þjálfað Sunderland og Ipswich Town á Englandi – orðaður við þjálfarastöðu íslenska landsliðsins. Á endanum ákvað KSÍ að ráða Svía að nafni Lars Lagerback. Reyndist það heilla skref.

Á síðasta ári var Keane aðstoðarþjálfari Nottingham Forest en hann hefur ekki starfað við þjálfun síðan samningi hans þar var rift. 

Írinn skapstóri er þó reglulegur gestur á Sky Sports þar sem hann starfar sem sérfræðingur um ensku úrvalsdeildina. Lét hann Harry Maguire og David De Gea, leikmenn Manchester United, til að mynda heyra það nýverið er liðið gerði 1-1 jafntefli við Tottenham Hotspur.

Aserbaídsjan endaði í fimmta og neðsta sæti E-riðils í undankeppni EM 2020 en mótið fer fram næsta sumar vegna kórónuveirufaraldursins. Fékk liðið aðeins eitt stig í átta leikjum og endaði með markatöluna 5-18.

Í H-riðli voru einnig Króatía, Wales, Slóvakía og Ungverjaland.

Næstu leikir Aserbaídsjan eru í Þjóðadeildinni gegn Lúxemborg, Kýpur og Svartfjallalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×